Lög Félagsins

Lög Fjáreigendafélags Reykjavíkur

Reykjavík 28. maí 2003.

1. grein

Félagið heitir Fjáreigendafélag Reykjavíkur. Heimili og varnarþing þess er í Reykjavík.

2. grein

Tilgangur félagsins er að annast hagsmuni fjáreigenda í Reykjavík og húseigenda og hestaeigenda á svæði félagsins í Fjárborg í Hólmsheiði. Þessum tilgangi hyggst félagið ná eftir því sem fjárhagur og aðstæður leyfa, með því:

a. að sjá um að félagsmenn hafi nægjanlegt beitiland fyrir sauðfé.

b. að stuðla að því að félagsmenn geti stundað fjárrækt á félagssvæðinu.

c. að veita félagsmönnum fræðslu, bæði hvað varðar hrossa- og fjárrækt.

d. að halda við öllum mannvirkjum í eigu félagsins í sem bestu ástandi, sem og að

eiga og reka félagsaðstöðu fyrir félaga sína og starfsemi félagsins.

3. grein

Félagar geta allir orðið, sem eiga fé í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og/eða hesta í Fjárborg. Allir húseigendur í Fjárborg skulu vera félagar. Nýir félagar öðlast öll réttindiá félagssvæðinu með greiðslu árgjalds, sem greiðist gjaldkera minnst 7 dögum fyrir aðalfund. Atkvæðisrétt öðlast þeir hinsvegar ekki fyrr en félagsfundur hefur samþykkt umsóknirnar.Félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum félagsins umfram greiðslu álagðra árgjalda.

4. grein

Félagsmaður, sem skuldar gjöld til félagsins vegna fyrra árs, hefur engin réttindi á fundun félagsins á nýju starfsári, fyrr en skuld hans er uppgerð við félagið og sé hún greidd minnst 7 dögum fyrir aðalfund. Lóðahafar skulu greiða félaginu tilskilin lóðagjöld, fyrst fyrir árið 2003.

5. grein

Stjórn félagsins skipa 5 menn og þrír varamenn og skulu allir löglegir félagsmenn í félaginu vera kjörgengir, þó skal aldrei vera fleiri en einn úr hópi þeirra félaga, sem hvorki eiga hús eða eru sauðfjáreigendur. Í stjórn sitja formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Varastjórn skal skipuð þremur mönnum. Skoðunarmenn reikninga skulu vera 2 og 1 til vara. Kjör stjórnar skal fara svo fram:

a. Annað árið skal kjósa formann, gjaldkera og meðstjórnanda, hvern út af fyrir sig.

b. Hitt árið skal kjósa varaformann og ritara hvorn út af fyrir sig.

c. Varastjórn og skoðunarmenn reikninga skal kjósa árlega.

Kjósa skal í einu lagi í varastjórn annars vegar og skoðunarmenn hins vegar, og raðast aðilar eftir atkvæðamagni hvers og eins. Ef atkvæðamagn fellur jafnt, skal annaðhvort kjósa aftur milli þeirra aðila, eða kasta hlutkesti. Þeir sem hlut eiga að máli ráða því hvorri aðferðinni verður beitt.

6. grein

Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur ásamt félagsstjórn yfirumsjón með öllum framkvæmdum þess. Hann boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund ef 3 stjórnarmenn æskja þess. Stjórnarfundir eru löglegir ef minnst 3 stjórnarmenn mæta. Ef stjórnarmaður boðar forföll er skylt að kalla til varamann. Ritari heldur gerðarbók yfir fundi félagsins og geymir bækur og skjöl þess. Gjaldkeri hefur umsjón með fjárreiðum félagsins og annast alla innheimtu álagðra gjalda. Hann varðveitir fé félagsins og greiðir reikninga þess eftir samþykki og áritun formanns og annars stjórnarmanns.

Stjórnin yfirfari reikninga félagsins tvisvar sinnum á ári, í apríl og september.

7. grein

Stjórn félagsins annast allar framkvæmdir fyrir félagið skv. ákvörðun aðalfundar. Hún sér um að jafna niður lögskilum að hausti og sækja fé í skilaréttir en henni er heimilt að fela sérstakri fjallskilanefnd framkvæmd þeirra mála. Hún setur reglur um umgengni og notkun félagssvæðisins og annarra eigna félagsins.

8. grein

Stjórn boðar félagsfundi eins oft og þurfa þykir. Ef minnst 10 félagar æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni, skal formaður boða félagsfund innan 6 vikna. Félagsfundur skal boðaður með minnst 5 daga fyrirvara með bréflegri tilkynningu í pósti og auglýsingu í dagblaði. Fundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað og minnst 25 félagar sitja hann.

Afl atkvæða ræður úrslitum allra mála á fundum félagsins, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum. Formaður eða staðgengill hans setur fundi félagsins og skipar fundarstjóra. Fundarstjóri úrskurðar í byrjun um lögmæti fundarins. Sé fundur ekki lögmætur skal boða til hans að nýju á venjulegan hátt og telst hann þá lögmætur án tillits til þess hversu margir eru mættir.

9. grein

Aðalfund skal halda eigi síðar en í febrúar og skal hann boðaður skv. ákvæðum 8. gr., en þó minnst með 10 daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar sé:

a. Formaður leggur fram og skilar yfirlitsskýrslu um starfsemi félagsins á liðnu ári og skal hún fylgja fundargerð.

b. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga s.1. árs til samþykktar og skulu þeir liggja fyrir eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

c. Kosning stjórnar og varastjórnar skv. 5. gr.

d. Kosning skoðunarmanna og varaskoðunarmanns skv. 5. gr.

e. Önnur mál er varða starfsemi og hag félagsins.

10. grein

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Árgjöld til félagsins skulu vera ákveðin á aðalfundi ár hvert og skal eindagi þeirra vera 3. júní.

11. grein

Heiðursfélagar geta þeir orðið, er sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum í þágu félagsins. Stjórn er heimilt að bera fram tillögu um heiðursfélaga á aðalfundi. Samþykki aðalfundar þarf til að gera félaga að heiðursfélaga. Heiðursfélaga skal afhent skjal þess efnis sem viðurkenningu.

Heiðursfélagar eru undanþegnir félagsgjaldi til félagsins, en njóta sömu réttinda sem aðrir fullgildir félagsmenn.

12. grein

Stjórn félagsins er óheimilt að selja fasteignir félagsins, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra, nema til komi samþykkt lögmæts félagsfundar.

13.grein

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi, þar sem mættir eru minnst 1/5 hluti félagsmanna og 2/3 hlutar greiddra atkvæða á fundinum samþykkja breytingarnar. Mæti of fáir skal boða til framhaldsaðalfundar og öðlast þá framkomnar lagabreytingar gildi ef 2/3 greiddra atkvæða samþykkja hana, án tillits til þess hve margir félagsmenn eru mættir. Breytingatillögur einstakra félagsmanna á lögum félagsins skulu hafa borist

stjórn félagsins minnst mánuði fyrir aðalfund, og skulu þær liggja fyrir hjá stjórn félagsins. Lagabreytinga skal getið í fundarboði.

14. grein

Ef slíta skal félaginu, skulu eignir þess renna í sérstakan verðlaunasjóð fyrir fjárrækt eða hrossarækt í vörslu Bændasamtaka Íslands, og setur síðasta stjórn

skipulagsreglur um stjórn sjóðsins.

15. grein

Með lögum þessum eru úr gildi numin eldri lög félagsins.